Nákuðungur (Nucella lapillus)

Útlit

Nákuðungur er tæplega meðalstór kuðungur, hann er sterklegur og þykkur með rákóttu yfirborði, oft mikið rákóttu en stundum næstum sléttu. Hyrnan eru stutt, keilulaga, vindingarnir eru 5-6, grunnvindingurinn er um 2/3 af lengd kuðungsins. Saumurinn fremur grunnur. Munninn egglaga eða sporöskjulaga, hálf kuðungslengdin, með þykkum vörum. Halinn stuttur og breiður. Dökkgrár, móleitur eða jafnvel hvítur, stundum mislitur. Lengd 3-4 cm.

Engir aðrir kuðungar líkjast nákuðungi.

Fæða og tímgun

Eins og nafnið gefur til kynna er nákuðungurinn kjötæta. Aðalfæðan eru hrúðurkarlar (mynd) og smáir kræklingar, auk þess ýmiss önnur smávaxin lindýr í fjörunni. Nákuðungur verpur eggjum í hylki, sem hann festir í þyrpingar undir steinum eða í klettasprungur.

Útbreiðsla

Í klettafjörum og grýttum fjörum, bæði brimasömum og skjólsælum, í hlýja sjónum, sjaldgæfari í kalda sjónum við Norðurland og finnst varla á Austurlandi. Hverfur að mestu úr fjörunni á veturna og liggur þá í dvala. Finnst beggja vegna Norður-Atlantshafs.

Nytjar eru litlar, nema hann var notaður til litunar, til að fá fram purpurarauðan lit. Er eitthvað etinn sums staðar erlendis.