Nánar um verkefni
Í fjörunni er hægt bardúsa ýmislegt. Eitt það mikilvægasta er að öðlast einhverja þekkingu á þeim lífverum sem þar lifa. Til að byrja með er gott að þekkja þær algengustu og mest áberandi og læra síðan að þekkja hinar síðar. Hér er vert að minna á orð Baba Dioum skógarverkfræðings, náttúrverndarsinna og skálds frá Senegal: „In the end, we will protect only what we love, we will love only what we understand, we will understand only what we are taught.“ Það má þýða „Þegar allt kemur til alls þá verndum við aðeins það sem við elskum, við elskum það sem við skiljum, við skiljum einungis það sem okkur er kennt“. Stór hluti að heimsókn í fjöruna er það að upplifa náttúruna, fjölbreytileika, undur, finna fyrir krafti sjávar svo eitthvað sé nefnt. Það er rétt að minna á umgengnisreglur fjörunnar sem verður að hafa í heiðri, þær eru birtar neðst á þessari síðu.
Hvað er þang og þari?
Þörungar eru áberandi á grunnsævi og lifa flestir fastir við botn á sjávarströndum. Verkaskipting á milli líkamshluta er lítil, einfaldur líkamsvefur þeirra kallast þal. Þeir eru ekki með neinar rætur heldur eru öflugir festiþræðir sem skorða þörunginn við botninn. Hvernig veit maður hvað er þang og þari? Það er best að átta sig á því með heimsókn í fjöruna og ganga um hana og rýna í lífríkið. Þörungar eru meira áberandi í grjótfjörum og þarf því að heimsækja eina slíka. Þang vex víða um fjöruna en þari vex að mestu neðan stórstraumsfjörumarka. Þörungar sem ber við augu í fjörunni eru því flestir þang. Sá þari sem finnst þar hefur því slitnað frá undirlagi og rekið upp. Það er áhugavert að bera saman lengd þara og þangs með því að mæla þessar lífverur. Skoða útlit og lýsa mun í vaxtarlagi. Þangið er miklu greinóttara en þarinn og sumar þarategundir eru með breiðar blöðkur og aðrar með ílangar. Hvert er svo mikilvægi þangsins og þarans í lífríki sjávar? Hvað gerist þegar þangið og þarinn slitnar upp? Svokallaðar þanghrannir eru í skjólsælum stöðum í víkum og vogum, en í þeim er aðallega þang sem slitnað hefur upp og rekið í fjöruna. Eitt verkefni gæti verið að skoða lífríki þanghranna. Í þanghrönnum er að finna mikið lífríki, lirfur þang- og fjöruflugna og fullorðnar flugur þessara tegunda, svo eitthvað sé nefnt. Mikilvægi þessara þanghranna er mikið fyrir ýmsa fugla þar sem lirfur, flugur og önnur smádýr þanghrannanna eru fæða fyrir þá.
Á vefnum Fjaran og hafið má finna kennsluleiðbeiningar og ýmsar hugmyndir af verkefnum undir flipanum kennsluhugmyndir (https://www1.mms.is/hafid/index.php), þar má einnig finna greiningarlykil fyrir fjörulífverur (https://www1.mms.is/smadyr/fjaran/forsida.php), sem er mjög gagnlegur fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í að skoða lífríki fjörunnar.
Verkefnið felst í því að skoða og greina fjörudýr. Til þess að það sé hægt, er nauðsynlegt að vera útbúin fyrir fjöruheimsókn. Klæða sig eftir veðri og það er best að vera í stígvélum, þannig að hægt sé að fara auðveldlega um fjöruna og þá er hægt að vaða eitthvað í fjörupolla. Göngustafir eru ágætir til stuðnings, sérstaklega þar sem gengið er í þangi. Á fjöru leita fjörudýr skjóls og því er þau helst að finna undir þangi eða steinum. Það verður því að lyfta upp þangi og gá undir steina til þess að finna dýrin. Gott er að hafa með sér háf til þess að safna lífverum í fjörupollum. Háfnum skal sveiflað hægt og rólega innan um þangið í fjörupollinum. Það er einnig hægt að nota háfinn til þess að safna lífverum neðan fjöruborðs. Til þess að skoða lífverur nánar er nauðsynlegt að hafa einhver ílát til þess að setja þau í, fötur með loki henta best. Setja skal svolítinn sjó í ílátin þar sem lífverurnar eru geymdar. Gott er að hafa meðferðis bakka og stækkunargler ef skoða á dýrin á staðnum eftir söfnun. Til þess að greina lífverurnar má nota Fjörulífsvefinn, einnig er þægilegt að hafa meðferðis greiningalykil yfir fjörulífverur sem er að finna á vefnum Fjaran, greiningarlykill um smádýr (https://www1.mms.is/smadyr/fjaran/fjara.pdf). Þá er fyrsta skrefið að átta sig á því hvaða lífveruhópum lífverurnar tilheyra. Þar er helst um að ræða einhvern svamp, holdýr, mismunandi orma, lindýr, liðdýr, skrápdýr, fisk eða möttuldýr. Eftir skoðunina er best að sleppa lífverunum aftur í fjöruna nærri þeim stað þar sem þeim var safnað.
Eitt aðgengilegasta verkefnið í fjörunni er fuglaskoðun. Ef skoða á fugla í fjöru þá er fyrsta verk að átta sig á því hvaða fuglategundir eru til staðar. Fyrir þá sem ekki hafa reynslu í fuglaskoðun er nauðsynlegt að hafa góða greiningabók meðferðis eða nýta sér vefi sem hjálpa til við að greina fuglana svo sem Fuglavefinn (https://fuglavefur.is/), þar má líka finna upptökur af fuglahljóðum og þáttinn „Fugl mánaðarins“ á vef Náttúruminjsafnsins https://nmsi.is og slá svo tegundina inní leit. Kíkir er eiginlega nauðsynlegur þegar skoða skal fugla og svo er gott að skrá hjá sér það sem sést í minnisbók eða í síma. Sumir skrá upplýsingar í smáforrit og geta þannig haft yfirsýn yfir þá fugla sem sáust, hvar og hversu margir, eitt slíkt smáforrit sem er vinsælt hjá fuglaskoðurum nefnist eBird. Upplýsingar sem safnast með þessu forriti geta vísindamenn nýtt sér til rannsókna á fuglum, sjá nánar á https://ebird.org/home. Það er einnig áhugavert að fylgjast með atferli fugla og skrá niður hvað þeir eru að gera, hvernig eru samskipti milli fugla af sömu tegund og milli einstaklinga af mismunandi tegundum? Hljóð fugla eru mjög mismunandi og fjaran er góður vettvangur til þess að hlusta eftir fuglahljóðum. Hvaða hljóð gefa fuglarnir frá sér? Þekkir þú fugla á hljóðinu? Smáforritið Merlin er hjálplegt við að greina hljóð (og reyndar fugla alemnnt), en það er á ensku https://merlin.allaboutbirds.org. Þá má einnig velta fyrir sér hvort fuglarnir sem sjást eru staðfuglar, farfuglar, fargestir eða vetrargestir.
Í fjörunni má því miður oftast finna eitthvað rusl. Í fjöruheimsókn má nýta sér upplýsingar sem eru á Fjöruvefnum til þess að flokka ástand fjörunnar með tilliti til mengunar, sjá umfjöllun undir „Fundið í fjöru“, þar er notast við einkunnakvarða í bókstöfum (A, B, C og D). Fjara sem fær einkunnina A er þá í góðu standi, þar sem lítið sem ekkert rusl er að finna, verst er ástandið í fjörum sem fá einkunnina D, þar er rusl um víðan völl. Á Íslandi er nokkur strandhreinsunarverkefni í gangi og þar má finna upplýsingar um þessi verkefni, t.d. á vef Umhverfisstofnunar (https://strandhreinsun.gis.is/mapview/?application=strandhreinsun) og Landverndar (https://landvernd.is/hreinsumisland/).
Í fjörunni má einnig gera ýmsar tilraunir sem tengjast hinum ýmsu fræðigreinum náttúrufræða, á þessum vef má finna nokkrar slíkar sem henta yngstu aldurshópum grunnskóla, þar sem er verið að skoða t.d. öldugang, lífríki fjörupolla og byggingu sandkastala, sjá: https://tinybeans.com/beach-science-experiments-for-kids/. Á ýmsum vefjum má finna safn af alls konar verkefnum sem vinna má í fjöru, t.d hér: https://www.pinterest.com/elementalscienc/beach-science-activities. Á vef Field Studies Council má finna fjölbreytt náttúrufræði- og landafræðiverkefni sem hæfa nemendum á ýmsum stigum í grunnskóla og framhaldsskólum, sum þessara verkefna tengjast fjörunni: https://www.field-studies-council.org/resources/.
Þegar fjaran er heimsótt þá er nauðsynlegt að hafa í heiðri svokölluð „lögmál fjörulallans“ sem birt voru í bókinni „Fjörulíf“ eftir Agnar Ingólfsson o.fl. (1986):
- Leikum okkur ekki á vélknúnum farartækjum í fjörunni.
- Fjörugrjótið er launhált. Göngum með gætni.
- Berum með okkur poka og hirðum rusl.
- Brimið er heillandi en viðsjált. Verum varkár.
- Leitum leyfis landeiganda til fjörunytja.
- Forðumst að fæla fugla, seli og búfénað.
- Forðumst rányrkju, tínum ekki upp til agna.
- Þyrmum lífi þörunga og dýra eins og kostur er.
- Étum ekki fjörudýr og þörunga við skolræsi og í þéttbýli.
- Veltum steinum við með varúð. Skiljum við þá eins og að þeim var komið.
- Slæmt er að vera á flæðiskeri staddur. Gætum að sjávarföllum.