Olnbogaskel (Testudinalia testudinalis)
Útlit
Olnbogaskel minnir á skel fremur en kuðung eins og nafnið bendir til. Hún er hettulaga kuðungur eða hettusnigill (ekki með neina vindinga) og er hvirfillinn aðeins framan við miðju, munnop eða munninn er víður egglaga. Lengd munnans getur orðið allt að 30 mm og hæð kuðungsins orðið allt að 15 mm. Olnbogaskel er grá með dökkum rauðbrúnum eða fjólubrúnum flekkjum. Á höfði dýrsins eru tveir fálmarar og sitja augun ofan á þykkingum neðst á fálmurunum.
Líkist brúðarhettu, sem finnst við Vestur- og Norðurland. Hún er minni og fremur sjaldgæf. Þarahettan er brúnleit og með þynnri skel.
Fæða og tímgun
Olnbogaskelin skrapar þörunga, eins og kalkskorpu, af steinum með tenntri skráptungu.
Olnbogaskelin hrygnir eggjum í litla slímmassa sem hún festir undir steina eða í klettasprungum þar sem alltaf er rakt.
Útbreiðsla
Olnbogaskelin lifir í neðri hluta fjörunnar og á grunnsævi niður á um 40 m dýpi allt í kringum land. Hún lifir í grjót- og klapparfjörum og heldur sig þar sem rauðir skorpuþörungar þekja steinana. Olnbogaskelin lifir við Norður-Atlantshaf og finnst einnig í Kyrrahafi.
Nytjar eru engar