Risaskeri Nereis (Alitta) virens
Útlit
Þetta er stærsti (lengsti) hryggleysingi sem finnst við strendur landsins, venjuleg lengd er um 30 cm, en hann getur orðið mun lengri. Hann er liðormur sem grefur sig í blautan sand og leðju. Litur að ofan er oftast grænleitur eða blágrænn, en hann er ljós að neðan. Liðirnir skipta tugum og er hver liður með áberandi fóttotu eða kítínbursta, sem þjóna bæði hlutverki öndunarfæris eða ytri tálkna og sem hreyfingarfæri eða fætur. Risaskerinn er með áberandi fálmara á hausnum, tvö augu á stuttum stilkum og munn með tveimur stórum tönnum eða kjálkum og segir sagan, að þeir geti bitið menn!
Fæða og æxlun
Fæðan er þang og örverur. Þeir fjöga sér eins og aðrir skerar, kvendýrin synda upp í sjónum og gefa frá sér lyktahormóninn ferómón. Það laðar karlorminn til að gefa frá sér sæði og um leið verpur kvenormurinn eggjum til að frjógva þau. Bæði kyn synda þvínæst uppí fjöru til að deyja og eru gjarnan etin af máfum og öðrum sjófuglum.
Útbreiðsla
Risaskerinn finnst líklega eingöngu við sunnanverðan Faxaflóa, frá Innnesjum og norður í Hvalfjörð. Hann er lítt áberandi nema á æxlunartíma, sem er í kringum nýtt tungl í síðari hluta maí. Þá geta vogar og víkur fyllst af risaskerum og mikil veisla er hjá fuglum.