Samlokur (Bivalvia, flokkur)
Samlokur eru umluktar tveimur skeljum úr kalki. Möttull hjá þeim er tvískiptur, hægri og vinstri hluti sem mynda hvor sína skelina. Skeljar eru festar saman með hjör og tengdar að innan með dráttarvöðvum, sem yfirleitt eru tveir. Í möttulholinu er tálkn, eitt hvoru megin. Samlokur eru höfuðlausar og taugakerfi þeirra er rýrt. Hjá þeim er fótur, hann er vöðvi sem skotið er út þegar skel er opinn til þess að dýrið geti hreyft sig úr stað eða grafið sig niður. Allar lifa þær í vatni og flestar í sjó. Við fæðuöflun er samlokan opin en hún lokast við styggð. Flestar samlokur lifa á lífrænum ögnum og smásæjum lífverum sem þær sía úr sjónum sem streymir inn í dýrið. Einhverjar eru hræætur eða rándýr. Samlokur eru flestar einkynja og losa kynfrumurnar út í umhverfið og eftir frjóvgun þroskast lirfa sem er sviflæg og sest síðar að þar sem skilyrði eru góð og þar þroskast dýrið í samloku.