Sandkoli (Limanda limanda)

Útlit

Sandkoli er hauslítill og með smáan kjaft sem nær aftur að hægra auga. Tennur eru hvassar og eru fleiri í skolti blindu hliðarinnar. Uggar eru venjulegir flatfiskaguggar. Bakuggi byrjar á móts við eða aftan við mitt vinstra auga. Sporðblaðka er frekar stór. Hreistur er mjög smátt og hrjúft á dökku hliðinni, svokallað kambhreistur, en slétt á ljósu hliðinni. Litur er breytilegur eftir botni og umhverfi. Oft er sandkolinn dökkgrænleitur eða gráleitur, jafnvel allt að því svartur og með gulum smáblettum á dökku hliðinni sem upp snýr. Þessir blettir eru oft umkringdir svartri rönd. Vinstri hlið er ljós eða hvít. Lengdin er oftast undir 35 cm.

Fæða og tímgun

Fæða sandkolans er fyrst og fremst loðna, síli og alls konar skeldýr og þótt ótrúlegt sé með svona lítinn fisk þá étur hann mikið af stórum kúfiski. Einnig étur hann burstaorma, slöngustjörnur og krabbadýr. Þörunga etur hann einnig. Hrygning fer fram á 20-40 m dýpi. Hér við land hefst hún í seinni hluta apríl við suðurströndina og færist síðan til Vestur-, Norður- og Austurlands á næstu mánuðum. Er hrygningu víðast lokið í ágústmánuði og reyndar fyrr við suðurströndina. Eggin eru mjög smá, 0,6-0,9 mm í þvermál og sviflæg. Fjöldi þeirra í hverri hrygnu er um 50-150 þúsund. Seiði eru um 2,5 mm við klak og halda þau sig í svifinu fyrst í stað en leita til botns þegar þau eru um 1,5-3 cm á lengd.

Útbreiðsla

Sandkoli er botnfiskur á sand og leirbotni frá fjöruborði og niður á 150 m dýpi en hann er algengastur á 20-40 m. Hann finnst allt í kringum land. Talið var að hann flæktist lítið um í sjónum og aðeins af grynnra vatni á sumrin út á dýpra vatn á veturna og öfugt. Heimkynni sandkola eru í Hvítahafi og norðaustanverðu Atlantshafi meðfram strönd Noregs og inn í Skagerak og Kattegat og dönsku sundin inn í vestanvert Eystrasalt. Þá er hann mjög algengur í Norðursjónum og þaðan um Ermasund og inn í Biskajaflóa. Hann er allt í kringum Bretlandseyjar, við Færeyjar og Ísland.

Nytjar

Sandkoli hefur lítið verið veiddur hérlendis, en þeim mun meira meðal nágrannaþjóðanna.