Sandskel (Mya arenaria)
Útlit
Ljósleit skel og jafnvel hvít. Skelin er egglaga aðeins kúpt, þunn og gapir að aftanverðu vegna möttulpípunnar sem gengur þar út, afturendi er mjórri en framendi. Nef er lítið og nálægt miðju. Árhringir eru greinilegir. Hjúpur umlykur skelina og er hann gulur- (ljós- eða dökkgulur) eða brúnleitur. Sandskeljar geta orðið nokkuð stórar, allt að 12 til 15 cm, en hérlendis eru þær fullvaxnar í kringum 9 cm.
Fæða og æxlun
Lifir á lífrænum ögnum sem skelin síar úr umhverfinu. Ytri frjóvgun, lirfa þroskast fljótlega eftir frjóvgun, lirfan leitar uppi hentugt búsvæði og sest þar að og þroskast í skeldýr.
Útbreiðsla
Leirur og liggur hún oft grafin á nokkru dýpi allt niður á 50 cm í undantekningar tilfellum niður á 1,92 m. Þolir mismunandi seltustig, þannig að skelin þrífst í árósum þar sem selta er lítil og yfir í fulla seltu í sjó, sérstaklega algeng í árósum. Hefst við í fjöru á milli flóð- og fjörumarka, aðallega frá miðri fjöru og að stórstraumsfjörumörkum. Útbreiðsla um strandsvæði norðurhvels, Atlantshafsströnd Norður-Ameríku og frá Hvítahafi með Norður-Noregi og suður í Biskajaflóa. Við Kyrrahafsströnd N-Ameríku frá Kaliforníu og yfir til Gulahafsins.
Nytjar
Velþekkt nytjaskel í Evrópu en litlum sögum fer af nytjum af sandskel við Ísland.