Silkihadda (Musculus discors)

Útlit

Gul- eða brúnleit skel sem er erfitt að finna þar sem hjúpur umlykur skelina.  Helst sjáanleg þegar skelin er opin við fæðuöflun.  Skelin er egglaga og þunn.  Hvítleit og gljáandi að innan.  Hjúpur er fölgrænn yfir í ólífugrænn.  Nef skeljar er lítið og skilið frá framenda og er staðsett framan við miðju.  Gárótt skel nema miðhlutinn er gáralaus, mismargar gárur á hvorri skel.  Heimildum ber ekki saman um stærð, flestar erlendar heimildir nefna 12 mm sem hámarks lengd, en Agnar Ingólfsson o.fl. (1986) gefa upp 4 cm lengd sem venjulega stærð.

Fæða og æxlun

Silkihadda er síari, tekur fæðu úr sjónum sem streymir í gegnum lífveruna.

Ytri frjóvgun, lirfa þroskast fljótlega eftir frjóvgun, lirfan leitar uppi hentugt búsvæði og sest þar að og þroskast í skeldýr.

Útbreiðsla

Lifir neðst í grýttum fjörum, á grýttu undirlagi en helst í sjávarþörungum, stakar en oftar en ekki margar saman og niður á um 200 m dýpi á grunnsævi allt í kringum Ísland.  Silkihadda hefur víða útbreiðslu um norðurhvel frá heimsskautsbaugi og allt suður í Miðjarðahaf og í kringum Madeira.

Nytjar eru engar.