Sjóarkræða (Mastocarpus stellatus)

Útlit

Fremur smávaxinn rauðþörungur, 5-10 cm hár. Rennulaga greinar, innan við sentimetri á breidd, vaxa upp frá skífulaga stilki. Kvenplöntur eru með blöðrulaga æxlunarsepa innan á blöðkunum þegar sjóarkræðan er fullvaxin. Áferðin er brjóskkennd og liturinn er frá því að vera rauðbrúnn eða fjólublár yfir í næstum svartan eða jafnvel grænan eða gulleitan (blöðkuendar, ef þeir lenda í sterku sólarljósi).

Líkist fjörugrösum, en þekkist á rennulaga greinum, þær eru flatar á fjörugrösum. Separnir eru líka einstakir fyrir sjóarkræðu.

Útbreiðsla

Vex í grýttum fjörum eða klapparfjörum, frekar neðarlega og oft í stórum, samfelldum breiðum, sem líkjast mosaþembu. Vex um allt land nema á söndum Suðurstrandarinnar og er fremur sjaldgæf á Austurlandi. Er annars útbreidd víða um N-Atlantshafið.

Nytjar

Líklegt er að sjóarkræða hafi verið nýtt til matar hér á landi fyrr á öldum með fjörugrösum, sérstaklega á svæðum þar sem lítið var af grösunum. Tegundirnar vaxa gjarnan hvor innan um aðra í fjörunni og má nota báðar til grautargerðar.