Skollakoppur (Strongylocentrotus droebachiensis)

Útlit

Skollakoppur er yfirleitt grænn á lit, sbr. nafnið grænígull, en hann getur einnig verið brúneleitur. Dauð dýr, sem hafa misst gaddana, geta verið ljós á litinn. Algeng stærð er um 5 cm, en hann getur náð 9 cm. Skollakoppur er algengasta ígulkerið sem finnst við strendur Íslands. Hann hefur harða skel sem er öll út í broddum til að verja sig fyrir óvinum en broddarnir geta verið 1,5 cm á lengd. Skollakoppur getur hreyft broddana og neðri hluta sinn til gangs um botninn og til að afla sér fæðu. Hann étur með munni sem finnst undir honum, en endaþarmsopið er ofan á dýrinu og í kjafti hans eru fimm harðar tennur sem geta brotið harða fæðu eins og skeljar. Tannkransinn kallast lukt Aristótelesar.

Skollakoppur er minni og flatari en marígull og ekki rauður eins og hann.

Fæða og tímgun

Skollakoppur er alæta og getur hann verið skæður í humar- og krabbagildrum. Aðalfæðan er þó þang og þari og ef mikið er af skollakoppi, étur hann upp þaraskóga, svo þeir vaxa ekki aftur upp fyrr en öll ígulkerin eru dauð eða horfin á braut. Skollakoppurinn er einkynja,  dýrin eru annaðhvort karl- eða kvendýr. Hann hrygnir á vorin. Kvendýrin losa eggin út í sjóinn og um leið sprauta nærstödd karldýr sæðisfrumum sem frjóvga eggin. Eftir frjóvgun verða eggin sviflæg og þroskast í lirfur. Lirfurnar eru í svifinu í tvo til fimm mánuði áður en þær setjast á botninn. Þær verða þá hnöttóttar og mynda brodda og líkjast fullorðnum skollakoppi.

Útbreiðsla

Skollakoppur lifir allt í kringum Ísland, frá fjöruborði niður á 1500 m dýpi en er algengastur á 5 til 30 m dýpi. Hann heldur sig aðallega á hörðum botni. Skollakoppur er útbreiddur í Norður-Atlantshafi og Norður-Kyrrahafi. Í Atlantshafi finnst hann suður til Bretlandseyja og New Jersey í Bandaríkjunum.

Nytjar

Ígulkerjahrogn þykja herramannsmatur. Ígulkeraveiðar hófust hér við land árið 1992 og náðu hámarki með 1500 tonna veiði árið 1994, mest var veitt í Breiðafirði og Húnaflóa, en þó einnig talsvert í Eyjafirði. Markaðurinn fyrir ígulkerahrognin hrundi hinsvegar árið 1997 og hafa þau ekki verið veidd síðan.