Skúfaþang (Fucus distichus)

Útlit

Skúfaþang er breytilegt eftir vaxtarstað og bera afbrigðin sérstök nöfn. Hefðbundið skúfaþang er með kvíslgreindum, sléttum 1-2 cm breiðum, bólulausum blöðum með miðtaug. Þangið ber flöt, aflöng kynbeð frá apríl til júlí, þau uppblásin þegar þau eru þroskuð. Liturinn er brúnn, kynbeðin gul, lengd 30-90 cm. Belgjaþang er með ílangar loftbólur í pörum ofarlega á blöðunum. Beltisþang er smágerðara, með mjó, borðalaga blöð og aflöng kynbeð á endum þeirra.

Helst væri hægt að ruglast á belgjaþangi og bóluþangi, en bóluþangið er með hnöttóttar blöðrur og meira af þeim.

Útbreiðsla

Skúfaþangið vex neðarlega í klapparfjörum, sunnan lands og vestan í brimasömum fjörum eða þar sem mengunar gætir, norðan lands og austan í öllum klapparfjörum. Belgjaþang vex neðarlega í skjólsælum, grýttum fjörum og beltisþangið vex í pollum efst í klapparfjörum. Finnst bæði í Norður-Atlantshafi og –Kyrrahafi.

Var fyrrum nýtt sem eldsneyti.

Skúfaþang

Belgjaþang

Beltisþang

Útbreiðsla