Smyrslingur (Mya truncata)
Útlit
Gulhvít skel sem er oftast egglaga með þverstýfðan afturenda og kúptan framenda. Á afturenda er töluvert gap þar sem möttulpípan fer út. Yfirborð skeljar er nokkuð hrufótt. Nefið er áberandi og miðlægt. Hjúpur er ólífugrænn eða yfir í dökkbrúnn.
Fæða og æxlun
Lifir á lífrænum ögnum sem skelin síar úr umhverfinu. Ytri frjóvgun, lirfa (fyrst trochophore og síðar veliger) þroskast fljótlega eftir frjóvgun, lirfan leitar uppi hentugt búsvæði og sest þar að og þroskast í skeldýr. Sum ár æxlast þessi dýr ekkert.
Útbreiðsla
Smyrslingur lifir í leirum og oft nokkuð djúpt í leirunni, en finnst á bilinu 0−130 m dýpi við ströndina. Mjög algeng allt í kringum landið. Útbreidd við heimskautastrendur, finnst beggja vegna Atlantshafs, suður til Biskayaflóa Evrópumegin og suður til Massachusetts, Kyrrhafsmegin er útbreiðslan frá Vancouver, Kanada og yfir til Japan.
Nytjar
Dýrið er ætt en það fer litlum sögum af nytjum hér við land.