Snúðormar (Spirorbis spp)

Útlit

Snúðormar eru smávaxnir burstaormar sem búa í hvítum, snúðlaga kalkpípum, sem eru fastar við undirlagið.  Þvermál pípunnar er um 4 mm. Þeir minna á kuðunga, dýrin draga sig inní pípuna og loka á eftir sér eins og sniglar gera. Snúðormar eru einna sýnilegastir burstaorma í fjörum. Þeir eru oft áberandi á þangi eða því undirlagi sem þeir sitja á og er munur milli tegunda snúðorma á vali á undirlagi. Spirorbis borealis er algengasta tegundin hér og situr hún á skúfaþangi og sagþangi.

Kalkpípuormurinn (Pomatoceros triqueter) er stórvaxnari og liggur einnig í kalkpípum á steinum neðst í fjörunni. Pípurnar eru síður snúðlaga og stundum allt að því beinar (sjá mynd af steini).

Fæða og æxlun

Snúðormar smásæjar lífverur og lífrænar agnir úr sjónum með sérstökum þreifurum. Snúðormar eru tvíkynja. Sama dýrið myndar því bæði egg og frjó. Ekki er þó algengt að egg frjóvgist af frjói úr sama dýrinu. Oftast losa dýrin frjó sem berst inn í kalkhúsið hjá nágrannadýri og frjóvgar þar egg. Eftir frjóvun þroskast eggin inni í röri móðurinnar og klekjast þar út. Þegar lirfurnar eru tilbúnar, losna þær út í sjóinn og dreifast með straumum í nokkrar klukkustundir áður en þær setjast aftur. Þær velja sér bústað nálægt öðrum snúðormum af sömu tegund. Strax eftir að þær setjast byrja þær að mynda utan um sig kalkrör og taka upp sömu lifnaðarhætti og foreldrarnir. Sami snúðormurinn getur æxlast oft á sama árinu og getur lifað í eitt til tvö ár.

Útbreiðsla

Snúðormar finnast um land allt og eru algengir við norðanvert Atlantshafið.