Söl (Palmaria palmata)
Lýsing
Meðalstór rauðþörungur, blöðkurnar sem vaxa útfrá stofnblöðku eða blaði, eru 20-30 cm langar, rúnnaðar til endanna. Blaðkenndar hliðarblöðkur vaxa út frá röndum aðal blaðkanna. Blöðkurnar eru dökkrauðar, en geta orðið gul- eða grænleitar að áliðnum vaxtartíma, uppreknar plöntur eru einnig þannig á litinn.
Söl eru fjölær, þau vaxa aðallega snemma á vorin upp af brotum af gömlum stofnblöðkum frá fyrra ári, sem kallast sölvamóðir. Aðalsprettutíminn er frá seinni hluta mars fram að mánaðamótum maí/júní. Um sumarið safna þau forðasykrum. Plönturnar slitna síðan um haustið.
Engar þörungategundir líkjast sölvum.
Útbreiðsla
Söl vaxa allt í kringum land, nema við hreinar sandstrendur. Þau vaxa aðallega í fjörunni og má finna þau frá miðri fjöru, niður fyrir stórstraumsfjörumörk. Söl geta verið ríkjandi þar sem skilyrði eru góð, eins og í malarfjörum þar sem gætir ferskvatnsáhrifa. Söl vaxa víða á norðurhveli, bæði í Atlantshafi, Kyrrahafi og N-Íshafi.

Útbreiðsla
Nytjar
Söl hafa verið nýtt frá landnámi og er sú þörungategund sem mest hefur verið brúkuð til manneldis hér á landi. Sjá nánari umfjöllun í kafla um nýtingu fjörulífvera.