Stórkrossi (Asterias rubens)
Útlit
Stórkrossi er stjörnulaga með fimm nokkuð þykka arma. Hann er venjulega 10 til 15 cm í þvermál en getur orðið allt að 40 cm þar sem hann vex á skjólsælum stöðum. Hann er gulgrár eða appelsínugulur, en bláleit eða fjólublá dýr þekkjast einnig.
Húðin á ungum stórkrossa er yfirleitt fremur stíf en hún linast með aldrinum. Í henni er stoðgrind sem myndar óreglulegt netmynstur á yfirborðinu. Hvítir stuttir þyrnar eru í skúfum sem mynda hlykkjóttar raðir út eftir örmunum, bæði undir dýrinu og ofan á því. Undir örmunum eru fjórar raðir af sogfótum sem stórkrossinn notar bæði til að halda sig við botninn og einnig til að færa sig úr stað. Hann fer hægt yfir á botninum. Ef stórkrossi missir einn arminn vex fljótlega nýr í staðinn.
Hann er bæði stærri og gulari en roðakrossi og færri og lengri arma en sólstjarna.
Fæða og æxlun
Stórkrossi er rándýr sem lifir á skeldýrum og öðrum dýrum sem sitja föst eða eru hægfara. Hann opnar samlokur með því að spenna þær í sundur með sogfótunum. Þegar samlokan opnast hvolfir hann úr sér maganum, inn á milli skeljanna, magasafinn lamar bráðina, meltir hana og innbyrðir. Við æxlun losa bæði kyn kynfrumur sínar samtímis í sjóinn. Það gerist þegar blómi svifþörunga er í hámarki á vorin. Frjóguðu eggin eru sviflæg, lirfan sest síðan á botninn og fer að líkjast foreldrunum.
Útbreiðsla
Stórkrossi finnst allt í kringum land. Hann finnt neðst í fjörunni og neðan fjörunnar allt niður á 200 metra dýpi. Tegundin er algeng á grunnsævi og smáir einstaklingar finnast oft neðarlega í grýttum fjörum, á og undir steinum. Hann lifir í austanverðu Norður-Atlantshafi, frá Hvítahafi í suður til Senegal í Afríku.