Stranddoppa (Ecrobia ventrosa)
Útlit
Lítill keilulaga kuðungur, sléttur með smásæjum vaxtarrákum á fimm allkúptum vindingum. Saumurinn er djúpur, naflinn er með rauf og munni kuðungsins er breiðegglaga. Lifandi sniglar eru hornlitir og oft hálfgegnsæir þannig að dökkur líkaminn skín í gegn. Lengd um 4-6 mm.
Fæða og æxlun
Fæðan er litlir þörungar sem snigillinn etur beint af gróðri. Sniglarnir eru einkynja og makast kynin strax eftir að þau hafa náð kynþroska. Kvendýrin fæða lifandi afkvæmi sem eru komin með útlitseinkenni foreldranna þegar þeim er gotið.
Útbreiðsla
Finnst í ísöltum tjörnum, á leirum eða ofarlega í fjöru á nokkrum stöðum við sunnan- og vestanvert landið. Algengastur er snigillinn í gróðurmiklum fitjatjörnum. „Stranddoppa er fyrsti millihýsill fjölmargra tegunda agðna (Digenea), sníkjudýra sem eiga það sammerkt að lifa á fullorðinsstigi í meltingarvegi ýmissa fugla, einkum í smávöxnum vaðfuglum, máfum og andfuglum.“