Standmerla (Polycauliona verruculifera)

Útlit

Strandmerla er fagurgul hrúðurflétta með blaðkennda jaðra og kornótt þal í miðju. Bleðlarnir standa mjög reglulega, samsíða og hornrétt á jaðar fléttunnar. Askhirslur eru rauðgular og eru stundum áberandi.

Útbreiðsla

Strandmerla er mjög algeng í sjávarklettum og skerjum um land allt. Hún er saltsækin, fer aldrei lengra frá sjó en rétt ofan við fjörubeltið eða svo langt sem sjávarlöðrið nær í stórviðrum. Hún vex aðeins ofar eða ofantil í fjörusvertubeltinu. Hún er útbreidd með ströndum Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, bæði Atlantshafs- og Kyrrahafsmegin.