Þangfluga (Coelopa frigida)

Útlit

Þangfluga er flatvaxinn, frambolur nær sléttur að ofan og afturbolur samanpressaður. Bolurinn er svartleitur, fætur eru gulbrúnir. Á hliðum frambols og afturbols, á baki frambols eru þéttsetnir smáburstar. Fætur eru alsettir sterkum burstum. Lengd 4-8 mm.

Fæða og tímgun

Þangflugan verpur í þanghrannir og lirfurnar lifa á gerlagróðri sem þekur rotnandi þangið. Þær þroskast árið um kring í stærstu hrönnunum, sem gerlagróðurinn hitar upp innan frá og ná ekki að frjósa á veturna nema á yfirborðinu. Fjöldi flugna getur orðið gríðarlegur við þessar aðstæður. Flugurnar fara á stjá á veturna þegar hlánar. Þær safnast þá gjarnan að húsveggjum í næsta nágrenni við ströndina, einkum þar sem sólin yljar.

Útbreiðsla

Fáar flugur eru eins algengar í kjörlendi sínu og þangflugan. Þó þær klekist fyrst og fremst við ströndina, er ekki óalgengt að rekast á þangflugur inn til landsins … og jafnvel innandyra, en þær berast léttilega langar leiðir með vindum. Hún finnst í þanghrönnum um land allt og er, ásamt fjöruflugu og skildum tegundum, afar mikilvæg fæða fyrir fugla árið um kring og væntanlega mest á fartíma.  Þangfluga hefur víðustu útbreiðslu þeirra flugna sem lifa í þangi. Hún lifir með ströndum Norður-Atlantshafs, þar með talið Íslands og Færeyja, yfir til stranda Norðursjávar og Rússlands. Fluguna er líklega að finna á syðri hluta Grænlandsstranda og svo hefur hún borist til Bandaríkjanna.