Þanglýs  eru jafnfætlur og eru oftast einlitar, græn- eða brúnleitar, geta verið með hvítum doppum eða skellum. Lengdin er 2-3 cm. Fjórar tegundir eru algengastar hér við land og er auðveldast að greina þær á lögun afturendans. Á þanglús (Idotea granulosa) dregst afturendinn saman í odd. Á oddalús (I. baltica) eru hvöss horn á hliðum afturenda og aftur úr honum miðjum skagar oddur. Á brimlús (I. pelagica) er afturendinn ávalur, með litlum sem engum oddi. Á flekkulús (I. emarginata) er afturendinn dálítið íbjúgur eða þverstýfður. Þanglús er algeng í þanfjörum umhverfis land allt. Oddalús lifir neðst í þangfjörum og á leirum. Finnst víða um land nema á Austfjörðum. Brimlúsin finnst helst í brimasömum fjörum á Vesturlandi og vestanverðu Norðurlandi. Flekkulúsin er neðst í þangfjörum á Vesturlandi og vestanverðu Norðurlandi.