Þangskegg (Polysiphonia lanosa)
Lýsing
Ásæta sem vex eingöngu á klóþangi og sú sem mest er af á því. Þessi rauðþörungur myndar 2-6 cm langa, fremur stinna þræði. Þangskeggið er eins og strýhærðir flókar á klóþanginu. Þangskegg hefur mjótt þal, sem myndar þráðgreinóttan flóka. Þalið er fast með rætlingum við blöð klóþangsins. Það hefur verið talið ásæta, en nú bendir ýmislegt til að það geti einnig verið sníkill á klóþanginu, sumar klóþangsplöntur eru hreinlega þaktar í þangskeggi.
Engir þörungar líkast þangskeggi.
Útbreiðsla
Þangskegg vex allt í kringum land, síst þó á Austurlandi. Það er útbreitt við strendur V-Evrópu, frá N-Noregi og Íslandi, suður til Spánar. Það finnst einnig við Grænland og Nýfundnaland suður til Nýja-Englands.
Nytjar
Þangskegg er nýtt sem eins konar krydd til matar, bragðið minnir á sveppi og er það þá stundum kallað sætrufflur, sjá nýtingarkafla.