Þarastrútur (Lacuna vincta)
Útlit
Kuðungurinn er fremur veikbyggður, sléttur á yfirborði, með kúptum vindingum sem ganga út í odd. Vindingarnir eru fimm til sex. Saumur er grunnur. Munnopið er stórt og dropalaga. Umhverfis það er skelin nokkuð þykkari en annars staðar. Naflagat er skálægt og í skoru á skelinni við munninn. Liturinn er gulur, kuðungurinn er oftast með tveimur til fjórum dökkum röndum eftir endilöngum vindingunum. Dýrið sjálft er gult á lit með tveimur fálmurum á hausnum og sitja augun neðarlega á fálmurunum. Lengd allt að 16,5 mm og breidd 8,5 mm.
Engin kuðungur líkist þarastrút, kúfstrútur er með mun lægri hyrnu.
Fæða og tímgun
Eins og nafnið bendir til er aðalfæða þarastrútsins þari og þang, hann hefur hvassar tennur á skráptungunni til að raspa hann upp. Þarastrúturinn verpir eggjum í gulleita hlauphringi sem eru um 0,5 cm í þvermál. Kvendýrið festir eggjahringina á þörunga.
Útbreiðsla
Þarastrútur er algengur um land allt neðst í grýttum fjörum og á grunnsævi. Hann finnst um norðanvert Norður-Atlantshaf, bæði austan hafs og vestan.
Nytjar eru engar.