Trjámaðkur (Teredo norvegica)

Útlit

Trjámaðkur eða trémaðkur er ormlaga samloka af timburmaðkaætt. Fremst á líkamanum eru örsmáar, hvassar skeljar og með þeim borar trjámaðkurinn göng í timbur. Göngin húðar hann síðan að innan með kalki. Trémaðkur verður allt að 30 sm langur og veldur oft miklum skaða á bryggjustólpum, skipum og öðru tréverki í sjó.

Fæða og æxlun

Pípulaga hluti dýrsins, sem nær aftur að holuopinu í viðnum, neytir mataragna og súrefnis úr vatninu og losar úrgang og æxlunarfrumur. Einnig er ákveðið magn af viði innbyrt sem fæða.

Útbreiðsla

Finnst gjarnan í rekaviði, en einnig í tréverki í sjó um land allt. Hann er annars útbreiddur í Norður-Atlantshafi.