Unnarfaldur (Membranoptera alata)

Lýsing

Smávaxinn rauðþörungur, 5-20 cm. Hann er samsettur af jafnbreiðum, 2-5 mm marggreindum blöðum. Blöðin eru með miðtaug og blaðfaldurinn eða blaðjaðarinn heilrenndur og himnukenndur. Unnarfaldurinn er ýmist allur dökkrauður eða svartur neðantil og fagurrauður til endanna.

Engar þörungategundir líkjast unnarfaldi að ráði.

Útbreiðsla

Unnarfaldur vex neðarlega í grýttum fjörum eða klapparfjörum. Hann vex frá Lóni vestur um, á þeim fáu stöðum á hinni sendnu strönd Suðurlands, þar sem þörungar þrífast, eins og í Vestmannaeyjum og frá Þjórsárhrauni í Flóa vestur- og norður um til Hornstranda. Vex við strendur vestur-Evrópu, frá Norður-Noregi og Íslandi suður til Pýreneaskaga.

Nytjar eru ekki þekktar.