Veggjaglæða (Xanthoria parietina)

Útlit

Veggjaglæða eða veggjaskóf er stór, oft 6-10 sm í þvermál, hún er gulleit eða rauðgul, í miðjunni oft alsett askhirslum. Veggjaglæðan þekkist best frá öðrum glæðum á greinilega blaðkenndum jöðrum sem auðvelt er að losa frá undirlaginu.

Útbreiðsla

Veggjaglæðan vex á klettum, steyptum veggjum og stöku sinnum á viði eða trjábolum.  Hún getur litað heila klettaveggi í fuglabjörgum. Veggjaglæðan hefur hafræna útbreiðslu, hún er algeng þar sem úthafsloftslag er mest á landinu.  Hún er mjög útbreidd á Suður- og Vesturlandi, en finnst aðeins á ystu annesjum á Norður- og Austurlandi.