Ígulker (Echinoidea, flokkur)
Þessi dýr eru yfirleitt hnöttótt eða flatvaxin, með nálar sem dýrið getur hreyft. Ígulkerin hafa ekki arma en fimmskipting líkama sést á dýrinu. Hjá þeim myndar skrápur heild af kalkplötum sem liggja saman og geta því ekki hreyfst. Ígulker, eins og önnur skrápdýr, hreyfa sig með stilkum (sogfótum) og fara hægt yfir.
Ígulker lifa á sjávarbotninum á hörðu undirlagi og þau nærast aðallega á botngróðri en einnig smádýrum. Fæðuöflunarfæri ígulkera eru frekar flókin en þar er að finna í munni fimm hörð fyrirbæri sem virka sem tennur og eru nýtt til að bíta og tyggja fæðuna. „Óreglulegu ígulkerin“ lifa í mjúkum botni og grafa sig niður og sía næringuna úr sjávarsetinu, þau eru frábrugðin hinum að gerð þ.e. þeim sem eru nefnd „regluleg ígulker“.
Til ígulkera teljast 940 tegundir í finnast þau í öllum heimshöfum frá fjöru og niður á um 5.000 metra dýpi. Hér á landi eru tvær tegundir algengastar, skollakoppur og maríugull.