Krossfiskar (Asteroidea)
Þessi dýr hafa flest fimm arma sem einkenna þau ásamt svokallaðri miðplötu sem er eins og nafnið gefur til kynna miðlægt í dýrinu. Greinar sjóæðakerfis liggja frá miðju dýri út í armana og tengjast stilkum, svonefndum sogfótum, sem enda í sogskál. Stærð krossfiska er frá um 2 cm og allt að 1 m að þvermáli en oftast eru þeir á bilinu 12 – 24 cm. Munnurinn er undir miðju dýri og þegar þeir nærast þá ranghvelfist hluti af maganum um dýrið eða það sem þeir eru að fara að nærast á og meltir það.