Brúnþörungar2023-11-20T16:27:09+00:00
  • Hrossaþari

Brúnþörungar (Phaeophyta)

Brúnþörungarnir draga nafn sitt af litnum, hann stafar af brúnu litarefni sem er í litberum frumanna og yfirskyggir blaðgrænuna. Liturinn stafar af litarefni, fucoxanthin og fer litur þörungsins eftir magni þessa litarefnis í honum. Brúnþörungar eru stærstir og mest áberandi af öllum botnþörungum og eru þari og þang, sem við finnum í fjöru og á grunnsævi, yfirleitt að mestum hluta brúnþörungar. Þeir tilheyra botngróðrinum, plantan vex á steini eða öðru föstu undirlagi. Í miklu brimi skolar þörungunum á land og eru þeir uppistaðan í þanghrönnum, sem víða má finna ofarlega eða efst í fjörunni.

Brúnþörungar eru gerðir úr þali eins og aðrir þörungar, sem myndar blöðku, blöð eða þræði, allt eftir vaxtarlagi þörungsins. Þari og þang eru íslensk heiti yfir nokkrar tegundir brúnþörunga. Þykkir brúnþörungar með greinótta blöðku sem festa sig með flögu kallast einu nafni þang. Ef blaðkan, sem stundum er rifin í ræmur, situr á enda stilks og festan er þöngulhaus þá kallast þörungurinn þari.

Brúnþörungar eru mikilvæg fæða fyrir margar lífverur og búsvæði aragrúa lífvera. Svokallaðir þaraskógar eru sérstaklega mikilvægir í þessu tilliti. Útlit brúnþörunga og stærð er fjölbreytileg, þeir geta verið smáir og þráðlaga upp í risavaxna þara sem geta verið tugi metra að lengd, eins tegundir af ættkvíslinni Macrocystis. Brúnþörungarnir vaxa einna hraðast sjávarþörunga, stórvaxnar Macrocystis tegundir geta vaxið allt að 30 cm á dag. Frumuveggur brúnþörunga inniheldur beðmi (sellulósa) og algin sem er efni sem mikið notað í ýmsum iðnaði.

Það eru þekktar um 1.800 tegundir af brúnþörungum en við Ísland eru skráðar tæplega 80 tegundir.

Go to Top