Gróður2023-04-10T13:38:19+00:00
  • Klóþang

Gróður

Hér er átt við hvers kyns plöntur, hvort sem um er að ræða þörunga, aðrar lágplöntur eða háplöntur. Sá gróður sem þrífst í fjörum eru aðallega þörungar en háplöntur eru áberandi ofan við stórstraumsfjörumörkin. Plöntur eru í sérstöku ríki í flokkunarfræðinni sem er plönturíkið (Plantae). Þetta eru aðallega fjölfrumu lífverur sem eiga það sameiginlegt að ljóstillífa. Í heild eru til um 320.000 tegundir plantna hér á Jörðu. Tiltölulega fáar þessara tegunda lifa í sjó eða fjöru. Þarna eru ekki taldar með fléttur sem eru samsettar lífverur sem innihalda blábakteríu eða þörung ásamt sveppi. Þær líkjast hins vegar meir plöntum en sveppum. Á mörkum flóðs og fjöru vaxa fáeinar fléttutegundir en þær eru reyndar oft mjög áberandi á grjóti ofan við stórstraumsfjörumörk. Það sama á við mosana en nokkrar tegundir vaxa neðan við flóðmörk en ýmsar tegundir lifa á strandsvæðum þar sem oft eru ákjósanleg skilyrði fyrir mosa. Lágplanta er íslenskt heiti sem innifelur þörunga, fléttur og mosa, plöntur sem ekki eru með æðastrengi og fjölga sér með gróum, sveppir eru einnig taldir með lágplöntum. Litlum sögum fer af sveppum sem vaxa í fjörum á Íslandi, en sveppir lifa þar eins og í öðrum búsvæðum. Það hefur verið áætlað að 1.100 tegundir sveppa lifi í sjó á heimsvísu en um 440 tegundum hefur verið lýst.

Í og við fjöruna má samt finna ýmsan gróður og oft mjög gróskumikinn, sérstaklega í fjörunni sjálfri. Ofan við stórstraumsfjörumörkin eru háplöntur áberandi og fáeinar tegundir teygja sig niður fyrir það og vaxa í fjörunni og í sjó. Þörungar eru mest áberandi í fjörum. Flestir þeirra eru fastir við undirlag sem getur verið mismundandi en oft er það berg af einhverju tagi. Hjá þessum plöntum er sérhæfing á milli líkamshluta lítil og þær eru einfaldar að uppbyggingu, slíkur einfaldur líkamsvefur kallast þal. Stundum er talað um þalplöntur (þelingar) sem er þá samsvarandi orðinu lágplanta, þessi heiti hafa hafa hvorugt flokkunarfræðilegt vægi nú á dögum. Hjá plöntum með þal eru engin sérstök laufblöð eða aðrir sérhæfðir hlutar háplantna til staðar. Sjávarþörungum er skipt upp samkvæmt vaxtarlagi, þessir hópar eru þang og þari. Þangið er fíngerðara og yfirleitt greinótt og búsvæði þess er yfirleitt fjaran. Þarinn er að jafnaði stórvaxnari og sterkbyggðari með öflugari festibúnað sem kallaður er þöngulhaus. Þari vex neðan við stórstraumsfjörumörk.

Go to Top